Lög félagsins

1. grein
Nafn félagsins er Skotfélag Austurlands. Heimili og varnarþing er heimili formans stjórnar

2. grein
Félagið er félag áhugamanna um skotvopn, skotfimi og skotveiðar. Félagið er deildarskipt, íþróttadeild og veiðideild. Íþróttadeild starfar samkvæmt sér lögum sem laganefnd ÍSÍ samþykkir og veiðideild starfar samkvæmt lögum félagsins og siðareglum þess.

3. grein
Tilgangur félagsins er þessi:
 • Að gæta hagsmuna félagsmanna.
 • Að vinna að eflingu skotíþrótta og koma upp aðstöðu til skotæfinga og skotmóta
 • Að stuðla að bættri meðferð skotvopna og vinna gegn ógætilegri umgengni þeirra. Einnig að stuðla að fræðslu um málefni sem snerta skotfimi, skotveiðar, skotvopn og skotfæri.
 • Að fræða félagsmenn og aðra um þau lög, reglugerðir og reglur sem í gildi eru hverju sinni í landinu og tengjast markmiðum félagsins.

 

4. grein
Fullgildir félagar geta þeir orðið sem hljóta samþykki stjórnar og eru 16 ára og eldri og mega samkvæmt íslenskum lögum og reglugerðum fara með skotvopn. Ungmennum er heimilt að gerast aukafélagar í félaginu með málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðarétt. Stjórn ákveður hvort og hve mikið ársgjald aukafélaga er. Ársgjalf aukafélaga verði þó aldrei hærra en hálft árgjald fullgildra félaga.

5. grein
Félagar greiða ársgjald til félagsins. Upphæð ársgjalds er ákveðin á aðalfundi. Hvort sem félagar eru í annari eða báðum deildum félagsins greiða þeir sömu upphæð í ársgjald. Félagi nýtur fullra réttinda ef hann er skuldlaus við félagið. Skuldi félagsmaður ársgjöld fyrir tvö ár má stjórnin víkja honum úr félagin að undangenginni innheimtutilraun.

6. grein
Enginn félagsmaður ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins með öðru en gjöldum sínum. Enginn félagsmaður á tilkall til hluta af eignum félagsins þótt hann hverfi úr því, verði vikið úr því eða félaginu slitið. Brottvikning úr félaginu skal vera skriflega, sömuleiðis skal úrsögn úr félaginu vera skrifleg.

7. grein
Gerist félagi brotlegur við lög félagsins, lög íþróttadeildar eða siðareglur veiðideildar getur stjórn veitt honum áminningu eða vikið honum úr félaginu.

8. grein
Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, varaformaður,ritari,gjaldkeri og einn meðstjórnandi. Formaður skal kosinn sérstaklega. Stjórnin skiptir að öðru leiti með sér verkum. Í varastjórn skal kjósa þrjá menn.

9. grein
Aðalfund félagsins skal halda á tímabilinu frá byrjun mars til loka maí ár hvert. Boða skal til aðalfundar ótvírætt með viku fyrirvara. Aðalfundur er löglegur hafi verið löglega til hans boðað.

10. grein
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Störf aðalfundar eru þessi:

 • Fundarsetning
 • Fundarstjóri og fundarritari tilnefndir
 • Skýrsla stjórnar og nefnda
 • Reikningar félagsins lagðir fram
 • Lagabreytingar
 • Kosning stjórnar, nefnda og tveggja endurskoðenda
 • Upphæð ársgjalds ákveðin
 • Önnur mál

 

11. grein

Lögum félagsins verður einungis breytt á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða

12. grein
Samþykki tveggja aðalfunda í röð þarf til að leggja félagið niður. Eignir félagsins renna þá til UIA

13. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.